Hinn 58 ára Tyson mætir hinum 27 ára Paul í boxbardaga í Texas 15. nóvember. Bardaginn átti upphaflega að fara fram í sumar en var frestað eftir að Tyson veiktist.
Þeir Tyson og Paul munu þéna vel á bardaganum. Sá gamli segir að það sé ekki aðalhvati sinn. Hann eigi nægan pening enda græði hann vel á kannabisbúgarðinum sínum í Kaliforníu.
„Ég gæti setið á rassinum og beðið eftir kannabispeningunum á hverjum degi,“ sagði Tyson.
„Það er kjaftæði fyrir mér. Ég er maður. Ég vil taka áhættu. Stundum vil ég virkilega sjá úr hverju ég er gerður,“ bætti gamli heimsmeistarinn við.
Bardaginn í nóvember verður fyrsti boxbardagi Tysons síðan hann mætti Roy Jones yngri í sýningarbardaga fyrir fjórum árum. Í síðasta alvöru bardaga sínum, fyrir nítján árum, tapaði Tyson fyrir Kevin McBride.