Á vef Veðurstofunnar segir að lægðardrag á Grænlandshafi nálgist með kvöldinu og bæti þá smávegis í austanáttina við suðurströndina og lítilsháttar rigningu. Hiti verður fimm til tólf stig yfir daginn.
„Bjart með köflum, en þurrt annars staðar og milt veður að deginum. Í nótt og á morgun, laugardag, er útlit fyrir hæga suðaustlæga átt og smá vætu á víð og dreif, en þurrviðri norðaustanlands. Norðlægari vindur á sunnudag, skýjað með köflum, en smá væta við austurströndina og stöku skúrir á Suðausturlandi. Heldur svalara fyrir norðan og austan.
Útlit fyrir ákveðna norðanátt með kólnandi veðri er líður á næstu viku, en úrkoma veður þá meira í formi slyddu eða snjókomu fyrir norðan,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Suðaustlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og dálítil væta víða um land, en þurrt að kalla á Norðausturlandi. Hiti 5 til 10 stig.
Á sunnudag (haustjafndægur): Norðan 3-10 m/s og bjart með köflum, en smá væta norðaustanlands framan af degi. Hiti 1 til 12 stig, hlýjast sunnantil.
Á mánudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt og yfirleitt léttskýjað, en stöku skúrir við suður- og austurströndina. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Útlit fyrir norðanátt með slyddu eða snjókomu, en úrkomulaust að kalla sunnantil. Svalt veður.