Erlent

Wein­stein á­kærður fyrir fleiri kyn­ferðis­brot

Kjartan Kjartansson skrifar
Weinstein í dómsal á Manhattan í júlí. Fjöldi kvenna hefur sakað hann um nauðgun og kynferðisleg ofbeldi yfir margra ára tímabil.
Weinstein í dómsal á Manhattan í júlí. Fjöldi kvenna hefur sakað hann um nauðgun og kynferðisleg ofbeldi yfir margra ára tímabil. AP/Adam Gray

Saksóknarar í máli Harveys Weinstein, bandaríska kvikmyndaframleiðandans, hafa lagt fram ákæru á hendur honum fyrir enn fleiri kynferðisbrot. Réttað verður aftur yfir Weinstein í New York eftir að dómstóll ógilti dóm sem hann hlaut í vor.

Trúnaður ríkir enn um innihald ákærunnar en honum verður aflétt þegar Weinstein kemur fyrir dómara vegna hennar. AP-fréttastofan segir að það gæti jafnvel orðið í næstu viku. Saksóknararnir sögðu fyrir dómi í dag að nokkrir ásakendur væru tilbúnir að bera vitni gegn Weinstein.

Saksóknarnir greindu frá því í síðustu viku að þeir hefðu lagt sönnunargögn fyrir ákærudómstól um þrjár nýjar ásakanir á hendur Weinstein sem ná allt aftur á miðjan fyrsta áratug aldarinnar. AP segir ekki ljóst hvort að nýju ákærunnar tengist þeim ásökunum.

Æðsti dómstóll New York-ríkis ógilti í apríl dóm sem Weinstein hlaut fyrir nauðgun og kynferðisofbeldi gegn tveimur konum árið 2020. Rétta á yfir honum í því máli aftur um miðjan nóvember.

Weinstein, sem er 72 ára gamall, jafnar sig nú á hjartaaðgerð sem hann gekkst undir í skyndi á mánudag. Þar var vökvi fjarlægður úr hjarta hans og lungum. Hann var ekki viðstaddur fyrirtökuna fyrir dómi í dag.

Ásakanir fjölda kvenna á hendur Weinstein árið 2017 hrundu af stað byltingu sem hefur verið kennd við „MeToo“ um víðan heim. Þá stigu fyrst og fremst konur fram og lýstu reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og áreitni valdamikilla manna.


Tengdar fréttir

Weinstein fluttur í flýti í bráðaaðgerð

Harvey Weinstein, fyrrverandi kvikmyndaframleiðandi, var fluttur í flýti á spítala í gær í New York þar sem hann gekkst undir bráðaaðgerð á hjarta. Lögmenn Weinstein tilkynntu þetta í samtali við fréttastofu BBC. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×