Fótbolti

Leik­maður Viking kominn í leitirnar eða var hann aldrei týndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Djibril Diop á æfingu með Viking á meðan allt lék í lyndi hjá senegalska miðverðinum.
Djibril Diop á æfingu með Viking á meðan allt lék í lyndi hjá senegalska miðverðinum. @viking_fk

Djibril Diop er fundinn og félagið hans Viking segir meira segja að hann hafi aldrei verið týndur.

Staðarblaðið Stavanger Aftenblad sló því upp í dag að leikmaðurinn væri týndur en samkvæmt íþróttastjóra Víkings þá er engin dramatík í kringum þennan 25 ára varnarmann.

Blaðamaður Stavanger Aftenblad spurði umræddan íþróttastjóra, sem heitir Erik Nevland, hvar Djibril Diop væri þegar hann sá leikmanninn ekki á æfingu hjá Viking.

„Góð spurning. Við höfum ekki náð sambandi við hann,“ sagði Nevland þá við staðarblaðið.

Stavanger Aftenblad gerði í kjölfarið frétt um að leikmaður Víkings væri hreinlega týndur. NRK segir frá.

Eftir að þetta varð að fjölmiðlamáli í Noregi þá steig Nevland fram og útskýrði stöðuna betur.

„Hann er kominn til baka núna. Ég hef ekki talað við hann af því að ég var á fundi. Hann var ekkert týndur. Það var engin dramatík í gangi hér. Við vissum hvar hann var. Hann mun hrista af sér vonbrigðin og ég býst við því að hann verði fljótt tilbúinn,“ sagði Nevland við TV2.

Djibril Diop var ekki í hóp um helgina og var þar á undan ónotaður varamaður í fjórum leikjum í röð. Diop var byrjunarliðsmaður framan af tímabili en missti síðan stöðu sína í liðinu. 

Hann var síðan orðaður við lið í Frakklandi en ekkert varð af þeim skiptum. Það voru mikil vonbrigði fyrir Senegalann og eflaust aðalástæðan fyrir fjarveru hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×