Jason Daði skoraði seinna mark Grimsby í 2-1 heimasigri á Bradford City. Janus kom sínu liði í 2-0 á 47. mínútu og á endanum var það markið sem skildi á milli liðanna. Bradford minnkaði muninn tólf mínútum fyrir leikslok.
Þetta var fyrsta mark Jasonar Daða í hans fjórða mótsleik fyrir Grimsby. Grimsby hefur unnið tvo af fjórum leikjum sínum í ensku D-deildinni og situr í ellefta sæti.
Willum Þór Willumsson lagði upp fyrra mark Birmingham City í 2-1 heimasigri á Wigan í ensku C-deildinni. Markið skoraði Alfie May á 18. mínútu. Wigan jafnaði metin en Scott Wright tryggði Birmingham öll stigin í uppbótatíma.
Willum spilaði allan leikinn en Alfons Sampsted kom inn á sem varamaður á 51. mínútu. Með þessum sigri komst Birmingham upp í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig af tólf mögulegum.
Stefán Teitur Þórðarson spilaði fyrstu 72 mínútur leiksins þegar Preston tapaði 3-1 á útivelli á móti Oxford United. Staðan var 3-1 þegar Stefán fór af velli en Preston var þá nýorðið manni færra.
Preston situr í 21. sæti með þrjú stig úr fjórum leikjum og er aðeins einu stigi frá fallsæti.
Guðlaugur Victor Pálsson sat allan tímann á bekknum þegar Plymouth tapaði 1-0 á heimavelli á móti Stoke. Sigurmarkið kom sjö mínútum fyrir leikslok. Plymouth situr í fallsæti með tvö stig úr fyrstu fjórum leikjunum.