Fótbolti

Vilja ekki VAR í bikar­úr­slita­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir spilar með Vålerenga.
Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir spilar með Vålerenga. Getty/Gerrit van Cologne

Stjórn Íslendingafélagsins Vålerenga vilja alls ekki myndbandsdómgæslu í bikarúrslitaleik kvenna í fótbolta í Noregi.

Forráðamenn Vålerenga sendu bréf til samtaka efstudeildarfélaga kvenna, Topfotball Kvinner, þar sem þeir óska eftir því að sleppa tækninni í stærsta leik sumarsins. NRK segir frá.

„Okkar konur eiga það ekki skilið að vera notaðar sem tilraunaverkefni með tæki sem fólk hefur mjög misjafna upplifun af. Eins og staðan er núna þá felst áhætta í því að nota VAR í bikarúrslitaleiknum í ár,“ segir í bréfinu frá Vålerenga sem TV2 komst yfir.

Vålerenga vill að málið verði tekið fyrir á fundi TFK 19. september næstkomandi.

Myndbandsdómgæsla var notuð í bikarúrslitaleik Vålerenga og Rosenborg síðasta haust en fyrir utan það hefur hún ekki verið notuð í norska kvennafótboltanum.

Liðin mætast annað árið í röð í bikarúrslitaleiknum en þetta er Íslendingaslagur. Sædís Rún Heiðarsdóttir spilar með Vålerenga en með Rosenborg spilar Selma Sól Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×