Elfsborg áfram eftir vítaspyrnukeppni
Elfsborg komst áfram í deildarkeppni Evrópudeildarinnar eftir sigur gegn Molde í vítaspyrnukeppni. Báðir leikir liðanna enduðu með 1-1 jafntefli en Elfsborg var sparkvissara í kvöld og vann 4-2 í vítaspyrnukeppni.
Eggert Aron Guðmundsson og Andri Fannar Baldursson voru báðir ónotaðir varamenn hjá Elfsborg.
Orri inn af bekknum og FCK áfram
FC Kaupmannahöfn komst áfram í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar með samanlögðum 3-1 sigri gegn Kilmarnock frá Skotlandi. Fyrri leikinn vann FCK 2-0 en í Skotlandi í kvöld gerðu liðin 1-1 jafntefli sín á milli.
Orri Steinn Óskarsson var látinn byrja á varamannabekk FCK, en hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu síðustu daga. Hann kom inn á 63. mínútu, rétt áður en Lewis Mayo setti boltann óvart í eigið net og jafnaði fyrir danska félagið.
Panathinaikos með dramatískan sigur
Sverrir Ingi Ingason og félagar í gríska liðinu Panathinaikos töpuðu fyrri leik sínum gegn franska félaginu Lens 2-1. Þeir sneru gengi sínu hins vegar við á heimavelli í kvöld og unnu 2-0 sigur þökk sé mörkum Facundo Pellistri og Tete. 3-2 sigur samanlagt í einvíginu og sæti í Sambandsdeildinni tryggt. Sverrir Ingi stóð vaktina í vörninni en Hörður Björgvin Magnússon er frá vegna meiðsla.
Ajax örugglega áfram
Ajax tryggði sér sæti í Evrópudeildinni með samanlögðum 7-1 sigri gegn Jagiellonia frá Póllandi. Leikur kvöldsins vannst 3-0 á heimavelli. Kristin Hlynsson var utan hóps síðast en á varamannabekknum í kvöld, kom ekkert við sögu samt.
Dregið verður í deildarkeppni Evrópu- og Sambandsdeildarinnar í hádeginu á morgun. Drátturinn verður í beinni útsendingu á Vísi.