Haaland skoraði tíundu þrennu sína fyrir Manchester City í sigri helgarinnar. Sjö þeirra hafa komið í ensku úrvalsdeildinni í aðeins 68 leikjum hans í deildinni.
Hann er jafn Wayne Rooney, sem skoraði sjö þrennu í sínum 491 leik í deildinni, en þeir eru í fimmta sæti yfir þá sem hafa skorað flestar þrennur í deildinni. Haaland er einni frá þeim Thierry Henry, Harry Kane og Michael Owen sem skoruðu átta.
Sergio Aguero skoraði flestar, tólf talsins, fyrir Manchester City, Alan Shearer skoraði ellefu og Robbie Fowler níu.

Aðeins virðist vera tímaspursmál hvenær Haaland færir sig lengra upp listann en liðsfélagar hans hjá Manchester City virðast strax vera komnir með nóg. Í hvert skipti sem Haaland fær bolta fyrir það að skora þrennu skrifa liðsfélagar hans nafn sitt á knöttinn,
Einn þeirra, ekki er vitað hver, skrifaði kómísk skilaboð þess í stað. Þar stóð einfaldlega: „Ég er þreyttur á því að skrifa á þessa bolta“.
Þetta sást á mynd sem birt var á samfélagsmiðlum af bolta Haaalands frá því um helgina.
Manchester City sækir West Ham United heim næstu helgi en liðið er með fullt hús eftir fyrstu tvo leikina í deildinni. Haaland hefur skorað fjögur af sex mörkum City á leiktíðinni til þessa.