Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu. Hann segir að aðgerðir við leit hafi hafist að nýju um klukkan sjö í morgun. Hann segir að það verði töluvert færra fólk í dag því þar sem verið sé að leita á afmörkuðu svæði. „Það er þröngt að komast að þannig að það er unnið á stuttum vöktum. Þetta er heilmikil handavinna. Við munum vera með þrjú fjögur gengi sem skiptast á að vinna: moka og brjóta ís.“
Sveinn Kristján segir að í gær hafi þurft að beita handaflinu einu og að ekki sé hægt að koma neinum vélum þarna að.
„Þetta þarf allt að vinnast með handafli áfram meira og minna. Við erum með sagir og fleyga og slíkt til að mölva ísinn niður en annað ekki.“
Hvernig eru aðstæður á vettvangi?
„Þetta er náttúrulega uppi á jökli og aðstæður eftir því. Það er mikill ís og rennandi vatn eftir botninum. En ég held að veður sé þokkalegt þó það sé kalt í morgunsárið og kalt í nótt. Ég held að aðstæður til leitar séu þannig lagað ágætar.“
Blandaður hópur ferðamanna
Aðspurður um líðan ferðamannsins sem bjargað var undan farginu í gær segist Sveinn Kristján ekki hafa fengið frekari fréttir. Líðan viðkomandi sé stöðug og viðkomandi sé ekki í lífshættu.
Vitið hvers lenskir þessir einstaklingar eru?
„Já, við vitum það en viljum ekki gefa það upp í augnablikinu. Við erum að vinna í þeim hlutum ennþá og ekki tímabært að gefa það upp.“
Hann segir að um hafi verið að ræða mjög blandaðan hóp ferðamanna í umræddri ferð. „Þetta voru ferðamenn frá mörgum löndum. Tveir til fjórir saman í minni hópum sem sameinuðust og keyptu sér þessa ferð hjá fyrirtæki.“
Stíf öryggisvakt
Sveinn Kristján segir lögreglu vera með stífa öryggisvakt á vettvangi og yfir leitinni.
„Við leitum á meðan það er óhætt en við hættum um leið og við sjáum og finnum að ef aðstæður eru þannig að það er ekki forsvaranlegt að halda áfram leit þá endurskoðum við þá ákvörðun. Við förum eftir mjög stífum öryggisreglum og framfylgjum þeim.“
Hafið þið náð í aðstandendur þeirra sem lentu í slysinu?
„Nei, við erum ekki með í rauninni upplýsingar um það hverjir nákvæmlega það eru sem lentu í slysinu en erum að vinna að þeim upplýsingum og grafa það upp.“
Hægt er að fylgjast með nýjustu fréttum af leitinni í vaktinni hér að neðan.