Barfield lék á sinum tíma í bandarísku hafnaboltadeildinni í tólf ár með bæði Blue Jays og Yankees. Hann rakst á sláandi myndband á netinu.
Þar sést ung stelpa reyna að ná bolta sem hafnaboltamaður hafði slegið upp í stúku. Boltinn virðist vera kominn í hendur stúlkunnar þegar fullorðin kona kemur aðvífandi og rífur boltann af henni.
Konan fagnar eins og hún hafi unnið í lottó en stelpan gengur grátandi í burtu. Ekki beint fyrirmyndar framkoma hjá konunni sem netverjar voru fljótir að gefa nafnið Karen.
Umræddur Barfield leitar nú að þessari ungu stúlku. „Ef einhver getur fundið út nafn og heimilisfang þessarar stúlku þá vil ég senda henni áritaðan bolta og kylfu,“ skrifaði Barfield.
Netverjar hafa bent honum á það að þetta sé gamalt myndband og stúlkan er því ekki ung lengur.
Það verður hins vegar athyglisvert að sjá hvort Barfield finni stelpuna sem er jafnvel orðin móðir sjálf í dag. ESPN vekur athygli á leitinni á sínum samfélagsmiðlum sem ætti að auka líkurnar talsvert.
Jesse Barfield er 64 ára gamall en hann lék sinn síðasta MLB-leik árið 1993.