Innlent

Ó­vissu­stig vegna rigningar og skriðu­hættu á Trölla­skaga

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Siglufjarðarvegi við Strákagöng. Vegurinn er lokaður að Hrauni vegna grjóthruns. Myndin er úr safni.
Frá Siglufjarðarvegi við Strákagöng. Vegurinn er lokaður að Hrauni vegna grjóthruns. Myndin er úr safni. Skjáskot/Stöð 2

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna mikillar rigningar og aukinnar hættu á skriðuföllum á Tröllaskaga. Hluta Siglufjarðarvegur hefur verið lokað vegna grjóthruns.

Úrhellisrigning er á Tröllaskaga og á norðanverðu landinu. Á Siglufirði hefur mælst 150 millímetra úrkoma síðasta sólarhringinn. Vatn flæddi vinn í nokkur hús á Eyrinni þar í morgun. Áfram er spáð rigningu fram á morgundaginn en þá að að draga úr ákefðinni, að því er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Skriðuhætta verður áfram viðvarandi, jafnvel eftir að rigningunni slotar.

Nú hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra ákveðið að lýsa yfir óvissustigi vegna rigningarinnar og skriðuhættunnar. Ákvörðunin var tekin eftir fund almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra með aðgerðastjórn á Norðurlandi eystra og Veðurstofunni.

Vegagerðin hefur nú lokað Siglufjarðarvegi frá Hrauni að Strákagöngum vegna grjóthruns þar. Hjáleið er um Lágheiði.

Tilkynnt hefur verið um grjóthrun og aurskriður utan við Suðureyri í Súgandafirði, í Tungudal við Ísafjörð, í Breiðadal í Önundarfirði, tvær skriður í Siglufirði, nokkrar skriður og grjóhrun á Siglufjarðarveg og tvær skriður í Strandarhreppi samkvæmt Veðurstofunni. Ekkert tjón hefur orðið á innviðum eða húsum vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×