Heimsleikarnir fóru fram þrátt fyrir að Lazar Dukic hafði drukknað í fyrstu grein. Sara var ekki meðal keppenda á heimsleikunum í CrossFit í ár en hún mætti til Texas til að kynna nýju fatalínu sína. Allt breyttist þó eftir þetta hræðilega slys á fyrsta keppnisdeginum.
Í nýjasta þættinum má heyra Söru tala um fráfall Lazars en hún fékk fréttirnar áður en hún kom til Texas. Sara sýndi líka frá því hvernig var að koma á heimsleikana undir þessum sérstöku og erfiðu aðstæðum.
Með þessu myndbandi má því líka sjá hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á bak við tjöldin á erfiðustu dögunum í sögu CrossFit íþróttarinnar.
Var á æfingu þegar hún fékk fréttirnar
„Ég var á æfingu í morgun þegar ég fékk óvænt skilaboð frá Snorra (Barón Jónssyni, umboðsmanni hennar) um að hugsanlega hefði einhver drukknað í fyrstu grein,“ sagði Sara við myndavélina þar sem hún sat og beið eftir flugi á JFK flugvellinum. Sara var þá á leið til Texas þar sem heimsleikarnir fóru fram.
„Þegar þú heyrir svona fréttir þá hugsar þú: Þetta getur ekki verið eins slæmt og það hljómar. Það hlýtur eitthvað annað hafa gerst því þetta á ekki að geta gerst,“ sagði Sara.
„Þetta var mikið áfall fyrir mig og hvað þá fyrir allt íþróttafólkið. Dagurinn hefur því farið í að senda frá mér ástar- og stuðningskveðjur og vonast til að þetta væri ekki satt. Því miður var þetta satt,“ sagði Sara.
„CrossFit heimsleikarnir snúast um að efla samfélagið okkar og styðja við hvort annað,“ sagði Sara.
„Þegar svona harmleikur verður þá viltu sýna fjölskyldu Lazars virðingu. Hann var mjög mikilvægur maður í CrossFit samfélaginu. Hann var með mjög opinn persónuleika og kom með gleði og léttar kyndingar í allar keppnir,“ sagði Sara.
Þetta er bara martröð
„Þetta er bara martröð og þetta er svo mikið sjokk fyrir alla,“ sagði Sara augljóslega mjög slegin.
Hún vissi ekki á þeirri stundu hvað myndi gerast með framhaldið á leikunum því íþróttafólkið var á sama tíma að ræða framhaldið við skipuleggjendur. Svo fór að heimsleikarnir voru kláraðir.
„Ég ætla samt sem áður að fara til Texas og bjóða öllum eins mikinn stuðning og ég get. Ég er ekki viss um að plönin okkar standi en þetta er bara harmleikur,“ sagði Sara.
Sara sýndi síðan frá því þegar hún mætti til Texas. Hún leyfir áhorfendum að fylgja sér á meðan hún reynir að átta sig á því að þessi hræðilegi atburður hafði ekki verið draumur.
„Því miður var þetta ekki vondur draumur,“ sagði Sara sorgmædd og bætti seinna við: „Þetta hefði getað verið hver sem er,“ sagði Sara og rifjaði upp þegar hún sjálf hefur lent í erfiðleikum með að anda eftir erfiðar æfingar. „Þetta var maður sem var svo góður hlaupari og svo góður sundmaður. Hvernig gat þetta gerst?,“ sagði Sara.
Sara er þekkt fyrir einlægni sína og að koma til dyra eins og hún er klædd. Það er eins með þetta þegar hún reynir að melta það hvað hafði í rauninni gerst og hvað tæki við á heimsleikunum.
Hér fyrir neðan má sjá allan þáttinn.