Mikla athygli vakti þegar Hull sást með sígarettu í munnvikinu á Opna bandaríska meistaramótinu fyrr á þessu ári. Hún endaði í 19. sæti á mótinu.
Ekkert verður hins vegar af því að Hull kveiki sér í sígarettu á Le Golf National þar sem golfkeppni Ólympíuleikanna í París fer fram. Reglur leikanna meina íþróttafólki að reykja á keppnissvæðunum. Hull telur að reykingabannið hafi slæm áhrif á frammistöðu hennar.
„Ég held að það geri það. Því þetta róar taugarnar aðeins,“ sagði Hull.
Golfkeppni kvenna á Ólympíuleikunum hófst í morgun. Hull keppir fyrir hönd Bretlands ásamt Georgiu Hall.