Innlent

Öflugar gufusprengingar hafi orðið í Hvera­dölum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Um er að ræða hver skammt austan við norðurenda göngupallsins.
Um er að ræða hver skammt austan við norðurenda göngupallsins. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

Öflugar gufusprengingar hafa orðið í einum hvernum við skíðaskálann í Hveradölum á Hellisheiði í sumar sem hefur kastað leir og drullu upp í hlíðina fyrir ofan.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands greinir frá því í færslu að töluverðar breytingar hafi orðið á hverasvæðinu.

Um er að ræða hver skammt austan við norðurenda göngupallsins. Mikil aurskriða úr leir og jarðvegi hefur myndast fyrir neðan hverinn og þekur hún nú stórt svæði sem áður var grasi gróið. Í færslunni segir að nokkuð sé um dauðan gróður í kringum aurkeiluna og því líklegt að sjóðheitt vatn hafi flætt um svæðið.

Mögulega hafi gígskál hversins gefið sig og funheitt efnið gusast úr honum. Hverinn hafi einnig rofið gróðurlendi í kringum sig og nokkuð sé um jarðvegstorfur sem hafa borist niður með aurkeilunni.

Loftmynd af vettvangi.Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands segir að þeim sé ekki kunnugt um nákvæma tímasetningu á því hvenær þetta á að hafa gerst en að það muni hafa verið á allra síðustu vikum.

„Svæðið hefur verið nokkuð til umræðu síðustu misseri vegna breytinga sem orðið hafa á jarðhitasvæðinu á yfirborði. Hefur meðal annars tekið að rjúka undan hringveginum, auk þess sem sífellt meiri gufa stígur upp úr hrauninu sunnan vegarins,“ segir í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×