Fótbolti

Heims­meistararnir sluppu með skrekkinn í upp­bóta­tíma og unnu í vító

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Salma Paralluelo fagnar eftir sigur spænska liðsins í vítakeppninni en hún lagði upp bæði mörkin og skoraði síðan vítakeppninni.
Salma Paralluelo fagnar eftir sigur spænska liðsins í vítakeppninni en hún lagði upp bæði mörkin og skoraði síðan vítakeppninni. Getty/Claudio Villa

Heimsmeistarar Spánar í fótbolta voru nálægt því að spila ekki um verðlaun á Ólympíuleikunum í París eftir að hafa komist í mikil vandræði á móti Kólumbíu í átta liða úrslitunum í dag.

Spænska liðið náði að skora tvívegis í lokin og tryggja sér framlengingu. Liðið vann síðan 4-2 í vítakeppninni. Spánn mætir Brasilíu í undanúrslitum keppninnar.

Kólumbía komst í 2-0 í leiknum. Mayra Ramirez, framherji Chelsea, skoraði fyrra markið á 12. mínútu og Leicy Santos, leikmaður Atletico Madrid á 53. mínútu. Santos lagði upp fyrsta markið.

Kólumbíska liðið var yfir í 85 mínútur en það dugði ekki til.

Jenifer Hermoso minnkaði muninn á 79. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður fjórtán mínútum áður.

Spænsku heimsmeisturunum tókst síðan að jafna metin á sjöundu mínútu í uppbótatíma þegar miðvörðurinn Irene Paredes skoraði eftir stoðsendingu frá Sölmu Paralluelo sem lagði einnig upp fyrsta mark Spánverja í leiknum.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Spænski markvörðurinn Maria Rodriguez varði fyrsta víti Kólumbíumanna frá Catalinu Usme og Liana Salazar hitti síðan ekki markið í þriðju spyrnu Kólumbíu.

Spænsku konurnar nýttu allar sínar fjórar vítaspyrnur en Mariona Caldentey, Eva Navarro, Salma Paralluelo og Aitana Bonmatí skoruðu úr sínum vítum. Bonmatí, besta knattspyrnukona heims, tryggði Spánverjum sigurinn með því að skora úr fjórðu spyrnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×