„Um er að ræða mál þar sem brotamenn hafa tekið yfir Facebook Messenger aðganga fólks og sent grunlausum vinum þeirra upplýsingar um leik þar sem hægt sé að vinna pening. Fólk er beðið um að gefa upp símanúmer sitt og samþykkja svo innskráningu með rafrænum skilríkjum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Þannig komist brotamenn inn á einkabanka fólks og framkvæmi þaðan millifærslur.
Fólk veigri sér að tilkynna brotin
Þá segir lögreglan að við rannsókn málanna hafi hún orðið vör við að fólk veigri sér að tilkynna brotin, lendi fólk í þessu.
„Á bak við brotin eru skipulagðir brotahópar og engin skömm felst í að verða fyrir brotum sem þessum - ekki frekar en öðrum brotum,“ segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Hún hvetur fólk til að hafa strax samband við sinn viðskiptabanka, hafi það grun um að það hafi orðið fyrir netbroti. Þetta eigi við ef fólk sér millifærslu á netbanka sínum til aðila sem það þekkir ekki, og ef það móttekur inn á sinn reikning millifærslu sem það ekki kannast við.