Fótbolti

Fiskibollumótmælin skiluðu árangri í bar­áttunni gegn VAR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, segir að norsk fótboltayfirvöld verði að hlusta meira á stuðningsmenn félaganna.
Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, segir að norsk fótboltayfirvöld verði að hlusta meira á stuðningsmenn félaganna. Getty/Mario Wurzburger

Myndbandsdómgæslan er umdeild í Noregi eins og sást á mótmælum á stórleik Rosenborg og Lilleström á dögunum. Norska knattspyrnusambandið boðar lýðræðislegar umræður um VAR og kosningu um framtíðina í mars.

Fiskibollurnar stoppuðu umræddan leik Rosenborg og Lilleström en á mánudaginn voru það dönsk sætabrauð sem fengu að fljúga inn á völlinn í öðrum leik sem var á milli Vålerenga og Ranheim í norsku b-deildinni.

Það þurfti þó bara að stoppa leikinn tímabundið en ekki að flauta leikinn af eins og hjá Rosenborg og Lilleström. Þau þurfa að klára sinn leik seinna fyrir luktum dyrum.

Samtök stuðningsmannafélaga í Noregi hafa nú biðlað til stuðningsmanna um að hætta þessum mótmælum en þau hafa þegar borið árangur.

Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, hefur viðurkennt að sambandið hafi gert mistök með því að hlusta ekki nóg á stuðningsmennina áður en myndbandsdómgæslan var tekin upp fyrir 2023 tímabilið.

„Við viljum frjáls skoðanaskipti í norskum fótbolta sem og í alþjóðlegum fótbolta. Við munum nú gera okkar besta að svara kalli félaganna og stuðningsmannanna,“ sagði Klaveness. Norska sambandið segir frá.

Hún boðar vinnuhóp um myndbandsdómgæslu þar sem fá sæti fulltrúar félaga, stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar og dómarar. Hópurinn mun skila niðurstöðum sínum í nóvember um kosti og galla myndbandsdómgæslunnar.

Á næsta ársþingi norska sambandsins í mars á næsta ári verður síðan kosið um framtíð VAR í norskum fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×