Umfjöllun um bílakaup verðandi forsetahjóna hafa vakið mikla athygli síðustu daga eftir að Brimborg auglýsti kaupin á samfélagsmiðlum og upplýst var að eigandi umboðsins væri meðal hundrað boðsgesta á innsetningarathöfn verðandi forseta.
Síðustu daga hefur svo verið óljóst hvaða kjör hjónin nutu hjá umboðinu. Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um afsláttinn frá Höllu og Brimborg á laugardaginn en það var ekki fyrr en á Facebook í morgun sem Halla svaraði því hjónin hefðu fengið 7,5 prósenta afslátt af verði bílsinsl. Í kjölfarið bárust svör frá umboðinu.
Gísli Örn Bjarnason framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Brimborg segir dygga viðskiptavini fá slíkan afslátt.
„Þetta er svona góður viðskiptamannaafsláttur hér frá Brimborg fyrir fólk sem er búið að vera lengi í viðskiptum hjá okkur. Bíllinn kostar um 7,9 milljónir á fullu verði og hún staðgreiddi þannig að hún fær aukaafslátt út á það. Þetta er afsláttur í hærri kantinum en í samræmi við þau kjör sem við bjóðum góðum viðskiptavinum Brimborgar,“ segir Gísli sem bætir við að umboðið hafi hins vegar veitt hærri afslætti.

Hún verði svara hvað hún hélt að yrði gert við myndina
Gísli segir að umboðið hafi þegar tekið ljósmyndina af forsetahjónum úr umferð þegar Halla óskaði eftir því og beðið hana afsökunar á birtingunni.
„Það skal tekið fram að við spurðum hana ekki hvort við mættum birta ljósmyndina. Hún verður svo að svara því hvað hún reiknaði með að yrði gert við myndina“ segir Gísli.
Fyrrum forseti nemendafélags fékk forsetaafsláttinn
Hann segist finna fyrir auknum áhuga á bílnum sem hjónin keyptu í kjölfar umræðunnar og að fólk óski eftir sambærilegum afsláttarkjörum.
„Við höfum fengið gríðarlega margar fyrirspurnir vegna bílsins og afsláttarins. Fólk kemur og óskar eftir forsetaafslættinum. Við gáfum t.d. fyrrverandi forseta nemendafélags MH forsetaafsláttinn. Við erum alltaf til í góða afslætti fyrir góða kúnna,“ segir Gísli að lokum.