ESPN slær þessu upp í dag og segir að enska félagið muni taka ákvörðun um það fyrir árslok hvort byggður verður nýr leikvangur eða hvort Old Trafford verður endurgerður.
Verkefnið gæti kostað meira en tvo milljarða punda eða meira en 356 milljarða íslenskra króna. Leikvangurinn mun taka á bilinu níutíu til hundrað þúsund manns í sæti og á að vera tilbúinn fyrir árið 2030.
Sir Jim Ratcliffe, nýjasti hluteigandi í félaginu, hefur talað um það opinberlega að hann vill frekar byggja nýjan leikvang á sama stað og Old Trafford stendur á. Ratcliff talaði þá um að byggja Wembley norðursins.
Manchester United mætti Arsenal í vináttuleik um helgina á SoFi leikvanginum í Inglewood á Los Angeles svæðinu.
Samkvæmt frétt ESPN þá hafa hæstráðendur hjá félaginu heimsótt Los Angeles mörgum sinnum á síðustu árum. Það gæti því verið að SoFi leikvangurinn verði notaður sem einhvers konar fyrirmynd byggi United nýjan leikvang.