Enski boltinn

Meiðs­la­mar­tröð Man Utd heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Byrjunarlið Manchester United í nótt.
Byrjunarlið Manchester United í nótt. Manchester United

Manchester United tapaði 2-1 gegn Arsenal er liðin mættust í vináttuleik í Bandaríkjunum í nótt. Rasmus Höjlund kom Man United yfir áður en hann fór meiddur af velli. Leny Yoro, hinn nýi miðvörður Manchester-liðsins, fór einnig af velli meiddur.

Á síðustu leiktíð átti Erik Ten Hag í stökustu vandræðum með að stilla upp sínu sterkasta liði vegna meiðsla. Þá sérstaklega í öftustu línu en leikmenn á borð við Luke Shaw og Lisandro Martínez voru varla með alla leiktíðina þar sem þeir voru að glíma við ýmis meiðsli.

Krísan var svo mikil að miðvörðurinn Jonny Evans, nú 36 ára, endaði á að spila 30 leiki í öllum keppnum þó svo hann væri að glíma við meiðsli sjálfur. Evans var upprunalega fenginn inn sem fimmti kostur í miðvarðarstöðuna.

Hvað leikinn sem fram fór í nótt varðar þá skoraði Höjlund eftir aðeins tíu mínútna leik en hann fór þá illa með vörn Arsenal og skoraði úr þröngu færi. Hann var hins vegar farinn meiddur af velli sex mínútum síðar.

Gabriel Jesus hafði jafnað metin áður en Yoro fór meiddur af velli þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Bæði lið gerðu urmul af skiptingum í hálfleik og síðari hálfleik en á endanum var það Gabriel Martinelli sem tryggði Skyttunum sigur með marki á 81. mínútu.

Lokatölur 2-1 en þar sem um var að ræða vináttuleik í Bandaríkjunum var eðlilega vítaspyrnu keppni að leik loknum, hana vann Man Utd 5-4.

„Það er auðvitað of stutt síðan til að segja til núna. Við þurfum að bíða, á næstu 24 tímunum ættum við að vita meira. Við förum mjög varlega, sérstaklega með Leny. Hann hafði aðeins verið með á helmingi æfinganna og er að sjálfsögðu mjög svekktur að þurfa koma af velli. En reynum að vera jákvæðir og sjá hvað gerist,“ sagði Ten Hag að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×