Bræðslan dregur nafn sitt af gamalli síldarbræðslu í bænum, þar sem tónleikar hátíðarinnar fara fram í kvöld, sem og alla laugardaga fyrir verslunarmannahelgina. Heilmikil dagskrá hefur verið í bænum í vikunni, í aðdraganda tónleikanna. Magni Ásgeirsson er annar bræðslustjóranna.
Viðburðarík vika
„Hér er búið að vera viðburðaríkt síðan á, ég held það hafi byrjað á þriðjudaginn, þá var svona barsvar eins og kallað er til að hita upp, svo voru tónleikar miðvikudag og fimmtudag. Það voru tvennir eða þrennir í gær, og svo er Bræðslan sjálf í dag, en við erum að leggja lokahönd á þetta tónleikahús okkar, sem við þurfum að smíða á hverju ári,“ segir Magni.

Upphaflega hafi hátíðin aðeins verið þessir einu tónleikar í gömlu bræðslunni, en svo þegar fólk hafi farið að flykkjast að bænum í stórum stíl hafi aðrir vertar á svæðinu séð sér leik á borði. Nú séu tónleikar í félagsheiminu þrjú kvöld vikunnar, ball í Álfakaffi og ýmislegt annað að gerast í bænum.
Hann segir að fólk hafi farið að flykkjast í bæinn um miðja vikuna til að fá gott stæði á tjaldstæðunum. Síðustu tvo daga hafi verið svolítil súld, en sólin sé að brjótast í gegn í dag, og útlit sé fyrir sól og blíðu, sem hann segir hið týpíska bræðsluveður.
Náttúran skartað sínu fegursta
„Hér eru búnir að vera einhverjir átta til fimmtán hvalir að busla hérna við bryggjuna upp á hvern einasta dag, þannig fólk hefur staðið hérna bara með kjálkann í gólfinu að horfa á þá leika sér. Svo erum við náttúrulega með stærstu lundabyggð á Íslandi hérna í bakgarðinum. Þú getur labbað innan um lundana og það liggur við að þú getir klappað þeim,“ segir Magni.

Mikil dagskrá er í bænum í dag, en leikhópurinn Lotta er í bænum, druslugangann verður haldin í hádeginu, en Bræðslan sjálf verður haldin í kvöld með tónleikum í gömlu síldarbræðslunni, og Magni segir að búast megi við mikilli stemningu.
„Já þetta er einhver ólýsanlegur galdur sem verður í þessu húsi sem verður í þessu húsi. Þetta er Hildur, Aron Can, GDRN, Gildran, Kælan mikla, og einhverjir gamlir kallar í hljómsveitinni Á móti sól, sem fá að vera með í fyrsta sinn,“ segir Magni glettinn, en hann spilar þar á gítar og syngur.