Greint var frá því fyrir rúmum mánuði að framkvæmdir væru hafnar á Carrington æfingasvæðinu. Alls verður ráðist í fimmtíu milljóna punda endurbætur og framkvæmdir munu standa yfir allt tímabilið.

Kvennaliði félagsins var gert að yfirgefa svæðið í sumar svo öruggt pláss væri fyrir karlaliðið. Manchester United hlaut nokkra gagnrýni fyrir þá ákvörðun og breskir fjölmiðlar greindu frá því að þær yrðu settar í tímabundna og flytjanlega búningsklefa en myndu æfa á Carrington.
Sú varð ekki raunin, kvennalið félagsins mun æfa í St. George‘s Park í Staffordshire, þar sem öll landslið Englands æfa fyrir sínar keppnir.
Svæðið er staðsett í um níutíu mínútna keyrslufjarlægð frá Manchester og því þótti stjórnarmönnum hentugast að bjóða leikmönnum að búa á svæðinu í þrjár vikur áður en haldið er til Marbella í æfingaferð.