Fótbolti

Tekur á­byrgð á njósnunum og stýrir Kanada ekki í fyrsta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Beverly Priestman gerði Kanada að Ólympíumeisturum á síðustu leikum.
Beverly Priestman gerði Kanada að Ólympíumeisturum á síðustu leikum. getty/Omar Vega

Beverly Priestman stýrir kanadíska kvennalandsliðinu í fótbolta ekki í fyrsta leik þess á Ólympíuleikunum í París eftir að samstarfsfélagar hennar notuðu dróna til að njósna um æfingu mótherja morgundagsins, Nýja-Sjálands.

Aðstoðarþjálfarinn Jasmine Mander og leikgreinandinn Joseph Lombardi hafa verið send heim af Ólympíuleikunum eftir þau notuðu dróna til að taka upp æfingu Nýja-Sjálands á mánudaginn.

Ný-Sjálendingar sendu inn kvörtun til Alþjóða ólympíunefndarinnar vegna framgöngu Kanadamanna og Lombardi var í kjölfarið handtekinn. Þau Mander voru svo send heim frá Frakklandi.

Kanadíska knattspyrnusambandið bað Ný-Sjálendinga afsökunar á njósnunum og Priestman ákvað aukinheldur að axla ábyrgð á gjörðum samstarfsfélaganna og ætlar ekki að stýra Kanada í leiknum gegn Nýja-Sjálandi á morgun.

„Ég vil fyrst og síðast biðja leikmenn og starfsfólk Nýja-Sjálands afsökunar sem og leikmenn Kanada. Þetta endurspeglar ekki gildin sem lið okkar stendur fyrir. Þegar uppi er staðið er ég ábyrg fyrir framferði þeirra sem tilheyra okkar hóp,“ sagði Priestman.

Kanada varð Ólympíumeistari í Tókýó fyrir þremur árum og á því titil að verja í París. Kanadíska liðið verður samt að spjara sig án Priestmans í fyrsta leiknum gegn Nýja-Sjálandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×