Fyrr í dag bárust fregnir þess efnis að Gareth Southgate, sem hafði stýrt enska liðinu frá árinu 2016, hefði sagt starfi sínu lausu.
Southgate kom enska liðinu alla leið í úrslit Evrópumótsins sem lauk síðastliðinn sunnudag, en Englendingar þurftu að sætta sig við silfur eftir tap gegn Spánverjum í úrslitum. Þetta var annað Evrópumótið í röð sem Englendingar fara í úrslit undir stjórn Southgate, en hann hefur einnig stýrt liðinu í undanúrslit HM.
Þrátt fyrir gott gengi Englendinga undir hans stjórn hefur liðinu ekki tekist að vinna titil. Þá hefur leikstíll og spilamennska liðsins undir stjórn Southgate ekki heillað alla og því velta margir fyrir sér hver næstu skref verða hjá þjálfaranum.
Enski miðillinn The Guardian greinir nú frá því að enska knattspyrnusambandið, FA, hafi sett saman lista yfir mögulega arftaka Southgate.
🚨🚨| Eddie Howe, Graham Potter and Thomas Tuchel will be the leading candidates to become England manager if current boss Gareth Southgate steps down.
— CentreGoals. (@centregoals) July 16, 2024
[@guardian] pic.twitter.com/kGxLoXehpY
Samkvæmt heimildum The Guardian eru þeir Eddie Howe, þjálfari Newcastle, Graham Potter, fyrrverandi þjálfari Chelsea og Brighton og Thomas Tuchel, fyrrverandi þjálfari Chelsea, PSG og Bayern München, meðal þeirra sem þykja líklegastir til að taka við starfinu.
Þremenningarnir eru þó ekki þeir einu sem eru á lista FA yfir mögulega arftaka Southgate því miðillinn nefnir einnig þá Mauricio Pochettino, fyrrverandi þjálfara Chelsea, Tottenham og PSG, Lee Carsley, þjálfara enska U-21 árs landsliðsins og fyrrum miðjumenn enska landsliðsins, Frank Lampard og Steven Gerrard til sögunnar.