Eftir misheppnaða tilraun á Reykjavíkurflugvelli fyrir fimm árum til að sýna loftbelgsflugtak í beinni átti að reyna aftur frá Helluflugvelli í gærkvöldi og að þessu sinni tókst það. Áður en varði tók belgurinn flugið, landfestum var sleppt, og áhorfendur sáu hann lyftast hratt upp.

Hann sveif undan suðvestangjólu til norðausturs og stefndi í átt að Heklu en um þetta leyti lauk útsendingunni. Hraðinn var um fimm metrar á sekúndu, um tíu hnútar. Ásamt fréttamanni Stöðvar 2 voru um borð loftbelgsflugmaðurinn Dominik Haggeney og Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands.
Skemmst er frá því að segja að loftbelgurinn flaug áfram um átta kílómetra vegalengd, fylgdi nokkurn veginn austurbakka Ytri Rangár og loftbelgsfarar sáu meira að segja flugvél fljúga undir belginn, eins og sást í frétt Stöðvar 2 í kvöld:
Með því að brenna meiri gasloga var flugið hækkað. Belgurinn fór upp í 2.500 feta hæð. Hann var þá kominn inn í ský og ekkert sást niður um tíma.
Eftir um 20 mínútna flug taldi flugstjórinn rétt að huga að lendingu. Norðvestur af Gunnarsholti sá Bjarni Einarsson myndatökumaður loftbelginn lækka flugið með Árbakka í Landsveit handan Rangár í baksýn.


Flugstjórinn varaði farþega sína við að á þessum hraða myndi karfan örugglega velta í lendingunni og þeir þyrftu að halda sér fast. Tökumaðurinn fylgdi belgnum eftir á bíl sínum og sá hvar hann snerti jörðina skammt frá Þingskálavegi, sunnan Geldingalækjar, um 25 mínútum eftir flugtak frá Hellu.
Lendingin var mjúk. En það fór eins og spáð var; karfan valt og dróst einhverja metra eftir jörðinni áður en hún stöðvaðist. Flugmann og farþega sakaði ekki. Þeir stóðu upp óskaddaðir en glaðir og kátir eftir velheppnað flug og eftirminnilegt og ekkert eftir nema að þakka ferðafélögunum fyrir túrinn.