E-listi var með hreinan meirihluta í Þingeyjarsveit, en þrír fulltrúar listans sem greiddu atkvæði með virkjunarframkvæmdinni, hafa nú sagt sig úr meirihlutasamstarfinu, þau Eyþór Kári, Halldór Þorlákur og Sigfús Haraldur. Hinir fulltrúar E-listans hafa þegar myndað nýjan meirihluta með fulltrúum K-listans.
„Þetta er gamalt mál, sem hefur verið svolítið deilumál. Það er þessi litla virkjun sem hefur verið í bígerð í sex ár eða svo. Hún var sett á dagskrá í tíð síðustu sveitarstjórnar,“ segir Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti bæjarstjórnar og fulltrúi E-lista.
Um er að ræða 9,8 megawatta aðrennslisvirkjun í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Gerður segir valda of miklu raski fyrir of lítinn ávinning.
Enginn orkuskortur á Norðurlandi
Samkvæmt aðalskipulagi Þingeyjarsveitar eigi ekki að virkja Skjálfandafljót. Þrír fulltrúar E-listans hafi hins vegar kosið gegn þessu, og viljað ráðast í framkvæmdir á virkjunarframkvæmdir.
„En ég held að það sé ekki brýn þörf á því núna. Í Þingeyjarsveit er verið að framleiða gríðarlega mikla orku. Hér er Laxárvirkjun, Kröfluvirkjun og Þeistareykjarvirkjun, sem verið er að stækka,“ segir Gerður. Gríðarlegt rask á náttúrunni myndi fylgja virkjun í Skjálfandafljóti, sem enginn ávinningur væri af eins og sakir standa.
Komandi kynslóðir taki ákvörðun um Skjálfandafljót
„Það er mjög líklegt að það komi upp sú staða einhvern tímann að einhverjir vilji virkja Skjálfandafljót. Það er ekkert ólíklegt ef það verður orkuskortur á svæðinu, sem er ekki núna. Við skulum þá bara leyfa komandi kynslóðum að taka ákvörðun um það þegar að því kemur,“ segir Gerður.