„Ég var að skutla stráknum mínum á flugvöllinn. Hann ferðast reglulega milli Reykjavíkur og Ísafjarðar,“ segir Ásgeir Helgi almennur borgari í þessu landi í samtali við Vísi. Hann er alveg viss í sinni sök.
Ásgeir Helgi fékk sem sagt bílastæðagjald á Reykjavíkurflugvelli í hausinn sem hann hefur sitthvað við að athuga. Fyrir það fyrsta segist hann aldrei hafa verið þarna við flugvöllinn í 45 mínútur en fyrstu mínúturnar við völlinn eiga að vera gjaldfrjálsar, eins og segir til um á skilti sem er við bílastæðin.

„Innanlandsflugið er nógu dýrt. Það er alltaf mælt með að menn mæti einhverjum fjörutíu mínútum áður en þú ferð í flug, þeir ná mönnum þannig,“ segir Ásgeir Helgi.
Hann segist algerlega klár á því að hann hafi aldrei verið þarna í meira en sem nemur hálftíma og því er þessi gjaldtaka tilhæfulaus. Ásgeir Helgi er búinn að senda Isavia bréf vegna málsins en hann segist ekki hafa fengið svar ennþá.
„Isavia getur tekið þennan bullreikning og troðið honum.. þið vitið hvert,“ segir Ásgeir Helgi. Hann segir um prinsipp-mál að ræða og hann bara kæri sig ekki um svona nokkuð.
Hann rekur að gjaldið sé 1.790 krónur, ef hann hefði verið þarna svona lengi. Þá standi á skiltinu að ef gjald er ekki greitt innan 48 (!!!) klukkutíma komi til auka 1.490kr þjónustugjald.
„Fyrir hvað þjónustu? Að láta taka sig ósmurt? Takk, en nei takk,“ segir Ásgeir Helgi.