Íslenski boltinn

„Takk fyrir að berjast alltaf fyrir okkur stelpunum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson með þeim Önnu Maríu Baldursdóttur og Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur eftir að Stjörnustelpurnar færðu honum þakkargjöf.
Kristján Guðmundsson með þeim Önnu Maríu Baldursdóttur og Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur eftir að Stjörnustelpurnar færðu honum þakkargjöf. @Stjarnan FC W

Kristján Guðmundsson hefur stýrt sínum síðasta leik hjá kvennaliði Stjörnunnar en hann ákvað að hætta með liðið eftir tap á móti Víkingi í síðustu viku. Stjörnustelpurnar eru þakklátar fráfarandi þjálfara sínum.

Kristján hefur þjálfað Stjörnukonur síðan í október 2018 og var á sínu sjötta tímabili með liðið.

Stjarnan er í áttunda sæti Bestu deildar kvenna með níu stig og þrjá sigra í tíu leikjum.

Jóhannes Karl Sigursteinsson tók við liðinu af Kristjáni og stýrir því í fyrsta sinn á móti Keflavík á morgun. Keflavík kemst upp fyrir Stjörnuna og sendir Garðabæjarkonur niður í fallsæti með sigri.

Staðan er því ekki nógu góð en Stjörnukonur sjá greinilega mikið eftir þjálfara sínum. Þær færðu honum gjöf til að þakka fyrir samstarfið.

„Takk fyrir okkur elsku Kristján. Takk fyrir að berjast alltaf fyrir okkur stelpunum og kvennaknattspyrnu yfir höfuð. Takk fyrir allar góðu minningarnar. Takk fyrir að vera þú,“ skrifuðu Stjörnustelpurnar á Instagram síðu liðsins og settu auk þess með fullt af hjörtum.

Það má síðan sjá mynd af Kristjáni með blóm og með flestum leikmönnum Stjörnunnar. Færsluna má sjá hér fyrir neðan.

Kristján stýrði kvennaliði Stjörnunnar í alls 103 leikjum í úrvalsdeild kvenna og liðið vann 45 þeirra en tapaði 41 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×