Enski boltinn

Keane bað Maguire afsökunar: „Ég fór yfir strikið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Maguire hefur verið vinsælt skotmark álitsgjafa eins og Roys Keane.
Harry Maguire hefur verið vinsælt skotmark álitsgjafa eins og Roys Keane. getty/Eddie Keogh

Roy Keane bað Harry Maguire, leikmann Manchester United, afsökunar á að hafa gagnrýnt hann of harkalega. Írinn kvaðst hafa farið yfir strikið.

Maguire hefur reglulega verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með United, meðal annars af Keane. Sá írski sér eftir sumu sem hann hefur sagt um enska landsliðsmanninn.

„Ég var harður við Harry Maguire af fótboltalegum ástæðum og augljóslega fjöllum við um marga United-leiki. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hjá United, erfiðara en með landsliðinu. Við tölum um andlega heilsu leikmanna og ég fór yfir strikið í gagnrýni minni á Maguire. Ég gerði smá grín að honum og það er ekki fallegt,“ sagði Keane í hlaðvarpinu The Overlap.

„Ég spilaði leikinn og veit hversu erfitt það er en ég er líka nógu stór til að viðurkenna mistök. Ég rakst á Harry fyrir nokkrum mánuðum og bað hann afsökunar. Stundum verður okkur álitsgjöfunum á í messunni og ef þetta verður persónulegt ertu farinn yfir strikið.“

Maguire og Keane eiga það sameiginlegt að hafa borið fyrirliðabandið hjá United. Það var hins vegar tekið af Maguire síðasta sumar.

Maguire þótti leika ágætlega með United á síðasta tímabili en meiddist undir lok þess og var ekki í enska EM-hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×