Segja má að 2024 árgangur WNBA-deildarinnar sé einhver sá mest spennandi frá upphafi. Vísir hefur fjallað ítarlega um uppgang Caitlin Clark og hennar ótrúlegu ár í háskólaboltanum vestanhafs en sá er gríðarlega vinsæll.
Reese hefur hins vegar varið eigið orðspor og sagt að ástæðan fyrir auknu áhorfi á WNBA-deildina sé ekki eingöngu Clark að þakka heldur einnig sér sem og öðrum upprennandi stjörnum.
Segja má að þrjár stjörnur hafi komið inn í deildina fyrir yfirstandandi leiktíð en Cameron Brink var valin af Los Angeles Sparks í nýliðavalinu í ár. Því miður fyrir hana, og Sparks, þá sleit Brink krossband í hné á dögunum og verður því ekki meira með það sem eftir lifir leiktíðar.
Breaking: The Sparks said that Cameron Brink suffered a left torn ACL in Tuesday's game vs. the Sun.
— ESPN (@espn) June 19, 2024
Additional details will be provided at a later date. pic.twitter.com/WBTfC0dRXe
En að leik næturinnar, hans var beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem um var að ræða uppgjör Reese og Clark en sú fyrrnefnda stóð uppi sem meistari árið 2023 en féll úr leik gegn Clark í átta liða úrslitum á þessu ári.
Það sama var upp á teningnum í nótt og til að nudda salti í sárin setti Reese met í WNBA-deildinni þegar hún nældi í sína áttundu tvöföldu tvennu í röð þegar lið hennar Chicago Sky vann eins stigs sigur á Caitlin Clark og stöllum hennar í Indiana Fever, lokatölur 88-87.
Reese var stigahæst allra á vellinum með 25 stig ásamt því að taka flest fráköst allra á vellinum eða 16 talsins. Clark skoraði „aðeins“ 17 stig í liði Fever en var eini leikmaður vallarins sem komst í tveggja stafa tölu þegar kom að stoðsendingum, alls gaf hún 13 slíkar.
Það stefnir ekki í að ofurstjörnurnar upprennandi verði jafn sigursælar í ár og þær voru í háskólaboltanum þar sem lið þeirra hafa ekki byrjað sérstaklega vel. Það er hins vegar gömul saga og ný þegar kemur að nýliðum, það tekur þá nær alltaf nokkur ár að gera sig gildandi í deild þeirra bestu.