Lífið

„Þetta líf er bara eitt augnabliksstopp“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hljómsveitin Hvítá frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið Low.
Hljómsveitin Hvítá frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið Low. Aðsend

„Low er lag sem fjallar um ferðalagið í gegnum lífið og hvernig það einkennist af breytilegum væntingum, tilfinningum og upplifunum. Þegar það verður erfitt er ekkert annað að gera en að grafa sig út úr erfiðleikunum og dansa og syngja. Þetta líf er bara eitt augnabliksstopp og þegar það er búið þá er það búið,“ segir gítarleikarinn Þór Freysson sem er meðlimur sveitarinnar Hvítár. 

Hljómsveitin var að senda frá sér splunkunýtt tónlistarmyndband sem er frumsýnt hér hjá Lífinu á Vísi.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið:

Klippa: Hvítá - Low

Davíð Berndsen stjórnaði upptökum og Stefanía Svavarsdóttir syngur bakraddir í laginu.

„Hvítá var mynduð síðastliðinn vetur og flokkast sem indí eða alternatív íslensk rokksveit. Hljómsveitarmeðlimirnir hafa allir verið lengi í tónlist og komið og farið úr ýmsum verkefnum hvers annars í gegnum árin. 

Hvítá dregur nafn sitt af stærstu jökulánum sem renna í gegnum íslenska náttúru frá hálendi til sjávar og táknar í hugum meðlimana það sköpunarflæði sem er uppsprettuefni tónlistartilrauna þeirra og einnig hvernig tónlist og sköpun eru nauðsynlegur hluti lífsins.“

Meðlimir Hvítár eru: Ásgrímur Angantýsson á hljómborð, Ingi R. Ingason á trommum, Pétur Kolbeinsson á bassa, Róbert Marshall syngur, spilar á gítar og saxófón og semur lögin, Tryggvi Már Gunnarsson spilar á gítar og Þór Freysson spilar á gítar. 

Hljómsveitin er um þessar mundir að leggja grunninn að sinni fyrstu hljómplötu sem væntanleg er næsta vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×