Þýskaland vann afar öruggan 5-1 sigur gegn Skotlandi í opnunarleik Evrópumótsins.
Florian Wirtz kom heimamönnum yfir strax á 10. mínútu leiks. Boltanum var skipt yfir á hægri kantinn til Joshua Kimmich sem fann Wirtz í fínu plássi rétt fyrir utan teig.
Wirtz var snöggur að hleypa skotinu af, markmaðurinn náði snertingu en varði boltann í stöngina og inn.
Skömmu síðar átti Kai Havertz gott hlaup inn fyrir varnarlínu Skota og sendingin frá Gundogan rataði beint fyrir hann. Havertz sneri á varnarmann sem kastaði sér fyrir, lagði boltann út á Jamal Musiala sem þrumaði boltanum í þaknetið og tvöfaldaði forystu heimamanna.
Á 25. mínútu flautaði dómarinn og benti á vítapunktinn, en eftir myndbandsskoðun kom í ljós að brotið átti sér stað utan teigs. Florian Wirtz skaut að marki en markmaðurinn greip skot hans örugglega.
Vítið sem þeir vildu kom á 44. mínútu þegar Ryan Porteous renndi sér með sólann á undan í Ilkay Gundogan. Porteous fékk rautt spjald og Kai Havertz stillti sér upp fyrir spyrnuna.

Hann skoraði af miklu öryggi og sendi markmanninn í rangt horn. Hálfleikstölur 3-0 heimamönnum í vil.
Í seinni hálfleik voru Skotar manni færri, þeir reyndu bara að láta tímann líða og fá ekki á sig fleiri mörk.
Það gekk fyrst um sinn en svo kom Niclas Fullkrug inn á. Honum var skipt inn á 63. mínútu, fimm mínútum síðar fékk hann boltann fyrir utan vítateig og skaut þrumufleyg í fjærhornið. Algjörlega óverjandi skot og glæsilegt fjórða mark.

Fullkrug setti boltann aftur í netið á 76. mínútu en var dæmdur rangstæður.
Skotar fengu mark til sárabóta þegar Antonio Rudiger setti boltann óvart í eigið net á 87. mínútu. Rudiger var afskaplega óheppinn en stýrði boltanum í netið af mikilli snilli.
Emre Can kórónaði svo frábæran leik Þjóðverja með marki á þriðju mínútu uppbótartíma. Fékk boltann rétt fyrir utan teig, krullaði framhjá markverðinum og tryggði 5-1 sigur heimamanna.
Þýskaland leikur næst gegn Ungverjalandi og Skotland á næst leik við Sviss, miðvikudaginn 19. júní.