Enski boltinn

Myndi vilja tala við Ras­h­ford og Greenwood en selja Maguire

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford og Mason Greenwood fagna í apríl 2021.
Marcus Rashford og Mason Greenwood fagna í apríl 2021. Matthew Peters/Getty Images

Rio Ferdinand, fyrrverandi miðvörður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, myndi selja Harry Maguire ef ákvörðunin væri hans. Þá myndi hann vilja tala við þá Marcus Rashford og Mason Greenwood áður en hann tæki ákvörðun.

Hinn 45 ára gamli Rio starfar í dag sem sparkspekingur og var í stuttu spjalli við Daily Mail þar sem farið var yfir leikmannahóp Man United og undir Rio komið hvort hann myndi halda téðum leikmanni eða selja hann.

Rio virtist furðu ákveðinn í að halda flestum af leikmönnum liðsins eftir slakan árangur á nýafstöðnu tímabili. Hann var þó tilbúinn að selja miðvörðinn Maguire en á sama tíma myndi hann halda Victor Lindelöf í þeirri von um að sænski landsliðsmaðurinn væri sáttur með að vera varaskeifa mestan hluta tímabilsins.

Annað svar sem vakti athygli var þegar Rio var spurður út í Rashford: „Ég held ég þyrfti að tala við Rashford og sjá hvar hausinn á honum er, hvað hann vill gera og hver ástæðan sé fyrir slökum frammistöðum. Ef ég fæ rétt svar myndi ég halda honum en ef mér líkar illa við það sem ég heyri þá læt ég hann fara.“

Rio var til í að losa vængmennina Antony og Jadon Sancho en ekki alveg svo viss þegar röðin kom að Greenwood.

Sá var á láni hjá spænska félaginu Getafe á nýafstaðinni leiktíð en hann hefur ekki spilað fyrir Man Utd síðan kærasta hans ásakaði hann um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi ásamt því að birta myndir og hljóðbrot máli sínu til stuðnings

„Ég þyrfti líka að tala við hann, sjá hvar hausinn á honum er og taka stöðuna í félaginu. Ég myndi líklega jafnvel tala við ákveðna hópa stuðningsfólks, held þetta sé ákvörðun félagsins frekar en ákvörðun um einstakan leikmann,“ sagði Rio um stöðu Greenwood.

Hér að ofan má sjá svör Rio við öðrum leikmönnum en hann virðist til í að halda flestum leikmönnum liðsins eins og staðan er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×