Veður

Snjórinn hverfur fljótt og blíða tekur við fyrir norðan

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Veðrið hefur leikið Norðlendinga grátt undanfarna daga en bráðum lætur sólin sjá sig á nýjan leik.
Veðrið hefur leikið Norðlendinga grátt undanfarna daga en bráðum lætur sólin sjá sig á nýjan leik. Vísir/Vilhelm

Einar Sveinbjörnsson hjá Bliku segir svalt fyrir norðan og að það verði það enn á morgun en að snjóinn taki nú rólega upp. Á þriðjudaginn mjakist hæðarhryggur í háloftunum inn yfir landið og að snúist í suðlægan vind á miðvikudag með aðstreymi af mildu lofti.

Þetta skrifar hann í spá sína sem hann birti á heimasíðu Bliku. Mikið kuldakast hefur verið fyrir norðan undanfarna daga og hefur valdið kaltjóni á ræktarlöndum og liggur fyrir að það komi til með að hafa neikvæð áhrif á uppskeru og afurðir bænda. Nú sé því þó loks að linna.

„Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga,“ skrifar Einar í upphafi færslunnar og vitnar í ljóð Halldórs Laxness.

Eianr segir að með mildara lofti hverfi snjórinn fljótt. Hann segir umbreytinguna geta orðið undur skjóta og spáir sextán gráðu hita í Varmahlíð strax á miðvikudag.

„Fylgjast þarf með köldu lægðunum á norðurhjaranum og hvort þær taki á rás í átt til okkar. Sú fyrir vestan Grænlands gæti „verpt eggi“ eða totu af svölu lofti. Henni er spáð yfir Suður-Grænland og fram hjá okkur. Önnur hæð við St. Lawrence-flóa og lítið fer fyrir, gæti myndað vænlegan hrygg og gert sig gildandi um komandi helgi (og 17. júní) á okkar slóðum. Hugsanlega sem Grænlandshæð með ekki svo kaldri N-átt eða að hæðin nái austar og þá með blíðuveðri um mikinn hluta landsins,“ skrifar Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×