Eins og Íslendingar ættu að vera farnir að þekkja nokkuð vel getur brugðið til beggja vona þegar kemur að veðrinu hér á landi. Gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið í gildi frá því í gær, þriðjudag, og á veðrinu ekki að slota fyrr en á morgun, fimmtudag.
Þessu hafa Akureyringar meðal annarra fengið að kynnast og miðað við myndir af Greifavellinum á Akureyri, heimavelli KA í Bestu-deild karla, eru vallaraðstæður langt frá því að vera í toppmálum.
Sævar Pétursson birti mynd af Greifavellinum á X-síðu sinni í morgun og þar má sjá að völlurinn er algjörlega þakinn í snjó. Í færslunni skýtur hann einnig létt á þá sem efuðust um það að vallaraðstæður yrðu í lagi þegar mótið hófst í apríl.
„Veit ekki hvað menn eru að efast með mótastjórann. Sá það enginn nema hann að það er eina vitið að spila í apríl og taka frí fyrstu vikuna í júní,“ ritar Sævar í færslunni sem má sjá hér fyrir neðan.
Veit ekki hvað menn eru að efast með mótastjorann. Sá það enginn nema hann að það er eina vitið að spila í apríl og taka fri fyrstu vikuna í júní 👏🏼👏🏼 pic.twitter.com/CkvjMCFylW
— saevar petursson (@saevarp) June 5, 2024
Vallaraðstæður á Greifavellinum bjóða hreinlega ekki upp á að leikinn sé fótbolti í efstu deild á Akureyri eins og staðan er núna, og því er líklega nokkuð heppilegt að nú sé einmitt landsleikjahlé.
Næsti heimaleikur KA er því ekki fyrr en 23. júní þegar liðið tekur á móti Fram. Fjórum dögum áður heimsækja KA-menn þó Breiðablik í Bestu-deildinni, en KA situr í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins fimm stig eftir níu leiki.