Innlent

Veður­spá slæm fyrir vikuna og bændur hvattir til að huga að bú­fénaði

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Spár gera ráð fyrir að djúp lægð taki sér stöðu fyrir austan land síðdegis á mánudag
Spár gera ráð fyrir að djúp lægð taki sér stöðu fyrir austan land síðdegis á mánudag Veðurstofa Íslands

Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir næstu viku, en undir kvöld á mánudag má búast við norðan og norðvestan hvassviðri eða stormi víða um land. Í tilkynningu frá almannavörnum á Norðurlandi vestra eru bændur hvattir til að huga að bústofni sínum og koma honum í skjól.

Spár gera ráð fyrir meðalvindi frá 15-23 m/s, þó útlit sé fyrir heldur hægari vind á vestasta hluta landsins. Með kaldri úrkomunni fylgi talsverð úrkoma á Norður- og Austurlandi. Rigning eða slydda verði nærri sjávarmáli, en snjókoma inn til landsins. Óvissa sé varðandi hæð snjólínunnar, en ekki sé útilokað að um tíma snjói langleiðina niður að sjávarmáli.

Veðrið verði langvarandi og margar spár sýni að því sloti ekki fyrr en á föstudag.

Um sé að ræða óveður sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma.

Útivistarfólki er bent á að fara yfir áætlanir sínar með tilliti til kulda og vosbúðar, og bændur eru hvattir til að huga að því að koma búfénaði í skjól.

Nánari umfjöllun um spána og veðurhorfur má finna á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×