Innlent

„Væta í minni sveit boðaði heldur betur grósku“

Jón Ísak Ragnarsson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Halla Hrund Logadóttir kaus í Fossvogsskóla í morgun
Halla Hrund Logadóttir kaus í Fossvogsskóla í morgun Rúv/Ragnar Visage

Halla Hrund Logadóttir segir að tilfinningin að mæta á kjörstað sé góð, dagurinn framundan sé spennandi en hún hvetur alla til að nýta sinn kosningarétt í dag. Hún hefur ekki áhyggjur af dvínandi fylgi sínu í skoðanakönnunum, en hún segir að væta hafi boðað grósku í hennar sveit og fer bjartsýn í daginn.

Halla Hrund segir að kosningabaráttan hafi verið löng og ströng og hún segist vera þakklát fyrir allan þann stuðning sem hún hefur fundið. Dagurinn í dag sé spennandi, enda hafi spennandi kappræður verið í vikunni. Hún fari bjartsýn inn í daginn þrátt fyrir dvínandi fylgi í skoðanakönnunum síðastliðna daga. Í skoðanakönnunum síðastliðna daga hafi hún alltaf verið í 1. - 3. sæti. Hún treystir kjósendum til að skoða frambjóðendur og kjósa með hjartanu.

Rúv/Ragnar Visage
Rúv/Ragnar Visage

Hvernig á svo að verja restinni af deginum?

„Ég ætla að vera á fleygiferð um bæinn, vera niðri á kosningaskrifstofu, hitta stuðningsmenn, heimsækja ólíka staði. Síðan hlakka ég til að fagna með stuðningsfólki í Björtuloftum í Hörpu í kvöld, þar verður líf og fjör og við ætlum að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum.“ Halla Hrund kveðst hafa heldur betur kosið rétt, en hún kaus Höllu Hrund, fyrir almenning, fyrir almannahagsmuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×