Fasteignamat á öllu landinu hækkar að meðaltali um 4,3 prósent og tekur hækkunin gildi um næstu áramót samkvæmt nýrri greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða HMS.
Fasteignamat sem er verðmat á markaðsvirði húss og lóðar hækkar mest á Vestfjörðum og Norðvesturlandi eða um og yfir tíu prósent. Það hækkar hins vegar minnst á höfðuborgarsvæðinu eða að meðaltali um 2,8 prósent.
Tryggvi Már Ingvarsson framkvæmdastjóri fasteigna hjá HMS segir að eftirspurn eftir húsnæði hafi aukist á Vestfjörðum vegna uppbyggingar í kringum fiskeldi sem skýri svo verðhækkanir á fasteignum þar með tilheyrandi hækkun á fasteignamati.
„Við styðjumst við kaupsamninga og veltu á fasteignamarkaði í okkar greiningu. Þessi gögn sýna að fasteignaverð á Vestfjörðum hefur verið að hækka undanfarin misseri sem veldur hækkun á fasteignamatinu,“ segir Tryggvi.
Sumarhús hækka mest
Fasteignamat sumarhúsa hækkar hins vegar mest allra fasteigna eða um 15,6 prósent að meðaltali.
„Við drögum þá ályktun að þessi mikla hækkun sé einfaldlega vegna framboðsskorts á sumarhúsum. Mesta hækkun á fasteignamati sumarhúsa er í kringum Akureyri eða um tuttugu og fimm prósent,“ segir Tryggvi.
Raunverð húsnæðis hafi lækkað á höfuðborgarsvæðinu
Verð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu lækkar hins vegar að raunvirði milli ára þ.e. þá er tekið tillit til verðbólgu. Lækkunarferlinu virðist hins vegar lokið og verð tekið að hækka á ný að sögn Jónasar Atla Gunnarssonar hagfræðings hjá HMS.
„Við sjáum að þessu raunverðslækkunartímabili er lokið. Íbúðaverð er aftur byrjað að hækka. Við hjá HMS teljum að íbúðarverð muni svo halda áfram að hækka að raunvirði svo lengi sem ekki er verið að byggja í takt við íbúðaþörf,“segir Jónas en á fundi HMS í dag kom fram að fjöldi íbúða í byggingu hefur dregist saman um 9,3 prósent milli ára.
Jónas segir enn fremur að íbúðakaup Grindvíkinga muni hafa skammtímaáhrif á fasteignaverð. Fasteignafélagið Þórkatla hefur nú þegar keypt 700 íbúðir af Grindvíkingum en íbúar geta selt félaginu fasteignir sínar til desember 2024.
„Við gerum ráð fyrir að næstu þrjá mánuði muni Grindvíkingar kaupa sér íbúðir í sveitarfélögum í kringum bæinn. Við það eykst eftirspurn um fjörtíu prósent miðað við venjulegan fjölda kaupsamninga sem getur tímabundið haft áhrif á verðið,“ segir Jónas.