„Ég greiddi atkvæði í þeirri atkvæðagreiðslu. Það er alveg rétt. Ég hef stundum sagt að maður eigi ekki að verja tíma í eftirsjá, en þetta er tvímælalaust eitt af erfiðustu málum sem hefur komið á borð Alþingis á meðan ég hef verið þar,“ sagði Katrín í Íslandi í dag.
„Ég get alveg sagt þér það að ég myndi aldrei gera þetta svona aftur.“
Katrín er eins og alþjóð veit fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna. Hún sat á Alþingi í sautján ár, þangað til hún sagði af sér í síðasta mánuði til að sækjast eftir embætti forseta Íslands.
Þennan þátt af Íslandi í dag má sjá í spilaranum hér fyrir neðan, en þar kíkti sjónvarpsmaðurinn Sindri Sindrason í heimsókn til Katrínar.
Í kjölfar bankahrunsins lagði þingmannanefnd fram þingsályktunartillögu um að ákæra fjóra ráðherra fyrir Landsdómi. Það voru Geir, Árni M. Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi utanríkisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra.
Árið 2010 samþykktu þingmenn að einungis skyldi ákæra Geir fyrir vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra.
Landsdómur kom saman í fyrsta og eina skipti og sakfelldi Geir í einum af sex ákæruliðum. En honum var ekki gerð refsing.
Var að vinna eftir sinni bestu vitund
„En maður taldi sig vera að vinna eftir sinni bestu vitund á þessum tíma, að vinna samkvæmt því sem lagt var til. En ég myndi ekki endurtaka þetta,“ segir Katrín um málið í dag.
Hún segist sjá eftir gjörðum sínum í þessu máli. „Ég myndi gera þetta öðruvísi ef maður fengi til þess tækifæri í dag.“
Vegna þessarar eftirsjár segist Katrín hafa lagt til að fyrirkomulaginu verði breytt, en árið 2020 var greint frá því að Lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm yrðu endurskoðuð.