Í mælaborðinu eru fimm grunnstoðir farsældar skilgreindar: Menntun, heilsa og vellíðan, öryggi og vernd, lífsgæði og félagsleg staða, þátttaka og félagsleg tengsl. En umræddir þættir ramma inn helstu forsendur þess að börn nái að vaxa og dafna í nútíð og framtíð. Undir hvern grunnþátt falla tölfræðigögn er gefa mynd af stöðu hvers þáttar og lýsa farsæld barna hér á landi með heildstæðum hætti.
Hlutverk mælaborðsins er að veita yfirsýn yfir stöðu farsældar barna á Íslandi á hverjum og einum tíma, með áherslu á viðkvæma hópa og samfélagslegar áskoranir. Enn fremur er því ætlað að fylgjast með þróun farsældar yfir tíma og leggja mat á árangur innleiðingar farsældarlaga. Gögnin eru birt út frá fjölda bakgrunnsbreyta og hægt er að skoða þau með tilliti til landshluta og átta stærstu sveitarfélaganna.
Fram kemur á vef stjórnarráðsins að mælaborðið hafi verið í þróun frá því ritun farsældarlaganna hófst og farið fram í umfangsmiklu samráði við önnur ráðuneyti, fræðasamfélagið, hagaðila, sveitarfélög og ekki síst börn.
Dagskrá kynningar 9.00-9.45
Fundarstjóri býður gesti velkomna, Heiða Björg Hilmarsdóttir formaður Sambands Íslenskra Sveitarfélaga
Opnun mælaborðs farsældar barna, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
Þróun og saga mælaborðsins, Kolbeinn Stefánsson, formaður stýrihóps verkefnisins og dósent við Háskóla Íslands
Hagnýting gagna í stefnumótun - kynning á eiginleikum mælaborðsins, Hjördís Eva Þórðardóttir teymisstjóri í mennta og barnamálaráðuneyti
Lokaorð frá fundarstjóra, Heiða Björg Hilmarsdóttir