Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar í dag að á morgun sé svo útlit fyrir norðan golu eða kalda. Um kvöldið verður líklega hægviðri víðast hvar. Sunnan heiða verður bjart veður en skýjað og úrkomulítið norðantil á landinu. Hiti breytist lítið frá því í dag.
Á miðvikudag er svo útlit fyrir að vindur snúist til suðlægra átta með vætu um landið sunnan- og vestanvert, Ekki er að sjá að hlýni neitt í bili nema að hitinn mun hækka dálítið á Norður- og Austurlandi.
Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, að á Austurlandi séu víða hálkublettir og á Möðrudalsöræfum á Norðurlandi. Einnig eru hálkublettir á Vestfjörðum. Annars er nokkuð greiðfært um landið.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Norðan 3-10 m/s. Skýjað og hiti 0 til 5 stig, en yfirleitt léttskýjað og hiti að 12 stigum sunnantil.
Á miðvikudag:
Suðlæg eða breytileg átt, 3-10, hvassast vestast. Skýjað og dálítil rigning sunnan- og vestanlands síðdegis. Hiti 2 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Suðlæg átt og rigning með köflum, en bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 4 til 10 stig að deginum.
Á föstudag:
Austlæg eða breytileg átt og víða þurrt en rigning suðaustantil. Hiti breytist lítið.
Á laugardag og sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt. Víða rigning með köflum og milt.