„Þetta er búið að síast í mig í svona tuttugu ár, má segja,“ segir Eiríkur, spurður hvenær hann hafi tekið ákvörðun um framboð. „Því eldri sem maður verður og þroskaðri fer maður að kafa dýpra í þetta. Það var bara einhver tilfinning að nú skuli láta vaða, þó ég hefði viljað óska eftir betra árferði í þetta. En maður verður að sigla á þann sjó sem er.“
Til upprifjunar öðlaðist Eiríkur landsfrægð árið 2012 þegar hann lifði af sjóslys undan ströndum Noregs og var valinn maður ársins á Bylgjunni og Rás 2. Hann er vélvirki og rafvirki að mennt og býr í Árbænum.
„Ég gerði þetta nánast allt í eigin persónu,“ segir Eiríkur um undirskriftirnar sem allar eru á pappír á gamla mátann.
Hvert verður þitt erindi á Bessastöðum?
„Mig langar, númer eitt, tvö og þrjú að auka lýðræði á Íslandi og aðskilja framkvæmdavaldið frá löggjafavaldinu. Það er löngu tímabært að við förum að vinna eftir þeirri stjórnarskrá sem við höfum, og það hvílir allt á herðum forsetans að gera svo.“
Heldurðu að forseti geti breytt því, þarf ekki Alþingi að gera breytingar á stjórnarskrá?
„Það er forseti sem raðar í ríkisráð, með því er hann búinn að aðskilja það.“
Þannig þú myndir bara skipa eftir eigin höfði í ríkisstjórn?
„Maður leitar sér nú alltaf ráða, þú ferð aldrei einvalda með svona völd,“ segir Eiríkur að lokum.