Íslenski boltinn

Berg­lind Björg komin með félagaskipti í Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar marki með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur gengið formlega frá félagsskiptum sínum yfir í Vals en félagsskiptin hafa nú verið staðfest á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.

Berglind Björg hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu en hún er að koma til baka úr barneignarleyfi.

Berglind er 32 ára gömul og mun styrkja sóknarleik Valsliðsins mikið þegar hún er komin aftur í sitt besta stand.

Berglind skipti úr franska félaginu Paris Saint-Germain þar sem hún hefur verið undanfarin tvö ár. Hér má sjá félagsskiptin staðfest á vef KSÍ.

Berglind er að koma aftur heim í íslensku deildina eftir að hafa spilað víðsvegar um Evrópu síðustu ár eins og með PSV í Hollandi, AC Milan á ítalíu, Le Havre í Frakklandi, Hammarby í Svíþjóð og Brann í Noregi.

Berglind lék síðast hér heima með Breiðabliki en hún skoraði tólf mörk í aðeins níu deildarleikjum þegar hún spilaði síðast á Íslandi sumarið 2020.

Alls hefur Berglind skorað 62 mörk í aðeins 61 leik á síðustu fjórum tímabilum sínum í efstu deild á Íslandi. Hún er áttunda markahæsti leikmaður efstu deildar kvenna frá upphafi með 137 mörk í 190 leikjum.

Berglind hefur skorað 12 mörk í 72 leikjum fyrir íslenska A-landsliðið og alls 40 mörk fyrir öll íslensku landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×