Körfubolti

„Heldur betur búinn að vinna hjörtu Kefl­víkinga“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Remy Martin er mikill listamaður í körfubolta og var mikill happafengur fyrir Keflvíkinga.
Remy Martin er mikill listamaður í körfubolta og var mikill happafengur fyrir Keflvíkinga. Vísir/Hulda Margrét

Remy Martin átti heiðurinn að „Play leiksins“, það er að segja atvikinu sem stóð upp úr í sigri Keflavíkur á Álftanesi í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar í körfubolta.

Subway Körfuboltakvöld velur alltaf flottasta atvik leiksins og að eftir þennan frábæra sigur Keflavíkur var það undrasending Remy Martin sem fékk þessa útnefningu.

„Við ætlum að velja Play leiksins í boði flugfélagsins Play. Þetta er náttúrulega Remy Martin með þessa sendingu á Jaka Brodnik. Þetta var sturlað,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds.

„Þetta er gullfallegt. Hann er viljugri sendingamaður en ég bjóst við,“ sagði Helgi Már Magnússon, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

„Það er eins og hann hafi tekið þá ákvörðun á einhverjum tímapunkti að fara meira út í þetta. Hann var ekki þarna, bara alls ekki. Mögulega var hann bara að finna sig og sitt hlutverk innan hópsins,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

„Hann er að koma úr risastóru prógrammi og miklar væntingar gerðar til hans. Það er ábyggilega erfitt fyrir svona strák að fá: Þú ert að gara til Íslands kallinn minn. Sætta sig við það og sætta sig við hlutverkið,“ sagði Jón.

„Þessi strákur er heldur betur búinn að vinna hjörtu Keflvíkinga. Án gríns. Þvílíkt. Það bíða hans bara stórir hlutir í framtíðinni eftir að hafa tæklað það mótlæti sem hann varð fyrir þegar hann kom úr skóla og fór til Grikklands og meiddist. Koma hingað og gera það sem hann er búinn að gera,“ sagði Jón .

Það má sjá þessa frábæru sendingu hér fyrir neðan.

Klippa: Remy Martin átti Play leiksins



Fleiri fréttir

Sjá meira


×