Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Þar segir að um sé að ræða umframkostnað heimila og fyrirtækja frá 19. janúar til 31. mars en heildarkostnaðurinn nemi rúmum tuttugu milljónum króna.
Hitaveitustofnæð frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist í eldgosi sem hófst 14. janúar með þeim afleiðingum að lítill þrýstingur var á dreifikerfi hitaveitunnar í bænum og að hluta til alveg heitavatnslaust. Á sama tíma stóð yfir rýming sem skerti möguleika fólks á að sinna húsum sínum.
„Þar sem langur frostakafli var á þessum tíma ákváðu Almannavarnir þann 19. janúar að ráðast í aðgerðir til að koma hita á fasteignir til að verja þær frostskemmdum. Við það jókst heitavatns- og rafmagnsnotkun í hluta bæjarins með tilheyrandi auka kostnaði fyrir húseigendur,“ segir í tilkynningu frá Almannavörnum.
„Almannavarnir munu greiða HS Veitum þá upphæð sem um ræðir, og hafa HS Veitur tekið að sér að endurgreiða þeim notendum sem urðu fyrir þessum auka kostnaði. Það verður gert við útsendingu orkureikninga vegna mars, sem sendir verða út bráðlega,“ segir í tilkynningunni.
„Við útreikningana verður horft til rafmagns- og heitavatnsnotkunar eins og hún var 1. til 14. janúar, þ.e. fyrir náttúruhamfarirnar í janúar og notkun umfram það á tímabilinu 19. janúar til 31. mars reiknuð sem umframnotkun og kemur til lækkunar orkureikninga vegna mars.“