„Það er ekki bara eitthvað eitt við Mari sem vakti áhuga minn, það er allt. Þetta er kona sem hefur ítrekað sigrað í bakgarðshlaupum hér heima, hleypur hundruð kílómetra án hvíldar og skilur karlmennina oftar en ekki eftir í rykinu. Mér er óskiljanlegt hvernig hún fer að þessu. Svo er það auðvitað ekki oft sem maður sér afreksíþróttafólk kveikja sér í sígarettu á milli þess sem það hleypur og ég þekki fáa sem eru jafn hnyttnir og óheflaðir í tilsvörum og Mari.“
Sigrún fylgdi Mari eftir í heilt ár, fór með henni í mikilvægasta hlaup hennar til þessa í Þýskalandi og heimsótti SOS barnaþorpið í Eistlandi þar sem hún ólst upp. „Ég vissi að baksaga Mariar væri stór, en óraði ekki fyrir því hversu mikið hún hefur gengið í gegnum á stuttri ævi.“