Innlent

Fyrr­verandi þing­maður ráðinn yfir­læknir

Árni Sæberg skrifar
Ólafur Þór sat síðast á þingi árið 2021.
Ólafur Þór sat síðast á þingi árið 2021. Vísir/Vilhelm

Ólafur Þór Gunnarsson hefur verið ráðinn yfirlæknir endurhæfingarhluta öldrunarlækninga á Landspítala frá 1. maí 2024. Hann sat á þingi fyrir Vinstri græn á árunum 2013 og 2017 til 2021.

Í tilkynningu á vef Landspítala segir að Ólafur Þór hafi lokið kandídatsprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1990 og sérnámi í lyflækningum og öldrunarlækningum frá University of Connecticut School of Medicine (UCONN) 1997. Hann hafi starfað við kandidatsnám á Landakoti 1990 til 1991, á Ísafirði sem Heilsugæslulæknir 1991 til 1992 og í BNA UCONN (í starfsnámi) 1992 til 1997.

Ólafur hafi starfað að loknu námi sem yfirlæknir á lyfja-, öldrunar og endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunarinnar í Ísafjarðarbæ 1997-2000 og síðan sem sérfræðingur á öldrunarlækningadeild Landspítala frá ágúst 2000 og aðstoðarsviðsstjóri öldrunarsviðs Landspítala frá 2005 til 2009. Hann hafi stundað margvísleg kennslustörf og verið virkur í ýmsu félagsstarfi og stjórnmálum og gengt trúnaðarstörfum því tengdu.

„Fjölgun eldra fólks hefur í för með sér áskoranir fyrir heilbrigðiskerfið. Endurhæfing eftir sjúkdóma og slys mun verða æ mikilvægari liður í að takast á við þær áskoranir. Efling slíkrar þjónustu á Landakoti mun skipta eldra fólk verulegu máli og bæta lífsgæði margra,“ er haft eftir Ólafi Þór í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×