Samþykkt var að hætta rekstri Menningartengsla Íslands og Rússlands (MÍR) á aðalfundi sem var haldinn sumarið 2022. Samhliða var samþykkt að selja eignir félagsins, þar á meðal húsnæði þess að Hverfisgötu 105 í Reykjavík, og láta söluvirðið mynda stofnfé sjóðs sem var ætlað að styrkja menningarstarfsemi sem tengdist menningum og sögu Rússlands.
Þrír aldnir félagsmenn, þar á meðal fyrrverandi formaður félagsins til áratuga, stefndu stjórn MÍR á þeirri forsendu að boðun aðalfundarins hefði ekki staðist lög. Kröfðust þeir þess að ákvarðanir fundarins yrðu ógiltar. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á það í síðasta mánuði og ógilti ákvarðanir aðalfundarins um breytingar á starfseminni og sölu eigna.
Þrátt fyrir að hafa verið gerð afturreka með áform sín fyrir dómstóli er stjórn MÍR ekki af baki dottin. Einar Bragason, formaður stjórnarinnar, segir að stefna hennar sé óbreytt og til standi að leggja áformin fram aftur á nýjum aðalfundi.
„Það verður fljótlega. Það er verið að undirbúa það,“ segir Einar um undirbúning aðalfundar. Boða þarf til aðalfundar MÍR með þriggja vikna fyrirvara.
Hann segist ekki geta svarað því hvernig fundurinn verði auglýstur að þessu sinni en héraðsdómur taldi að ekki hafi nægt að hengja upp auglýsingu í glugga húsnæðisins að Hverfisgötu um aðalfundinn fyrir tveimur árum. Stjórnarmenn hafa sagt að sá háttur hafi verið hafður á lengi hjá félaginu.
Stefnendur í málinu héldu því fram að aðeins stjórnarmenn hefðu verið viðstaddir aðalfundinn en stjórnin sagði að á bilinu fimm til tíu félagsmenn hefðu mætt.
Einar sagði Vísi í fyrra að stefnendurnir þrír hefðu ekki haft nein afskipti af starfsemi MÍR í seinni tíð. Hann segir að það hafi ekki breyst eftir málaferli síðustu missera.