Vegagerðin segir að á Vesturlandi sé hálka og hálkublettir eða snjóþekja á nokkrum leiðum og þá er varað við mjög slæmu ástandi á slitlagi í Dölunum, frá Bröttubrekku og yfir í Gufudalssveit. Þá er vegurinn um Fróðárheiði lokaður.
Á Vestfjörðum er óvissustig vegna snjóflóðahættu í gildi í Súðavíkurhlíð og lokað um Þröskulda og einnig á Dynjandisheiði.
Á Norðurlandi er þæfingsfærð og snjóþekja víða og þungfært milli Hjalteyrar og Dalvíkur. Á Siglufjarðarvegi er ófært í Almenningum og óvissustig vegna snjóflóðahættu og sömu sögu er að segja af Ólafsfjarðarmúla. Þá er vegurinn um Víkurskarð lokaður og á Þverárfjalli. Öxnadalsheiðin er svo enn lokuð en þar er unnið að mokstri. Nýjar upplýsingar koma um kl 9:00.
Á Austfjörðum var vegurinn um Fjarðarheiði opnaður í gærkvöldi en samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er vegurinn ófær sem stendur.