„Virknin í hinum gígunum er nokkuð jöfn. Annar er stærri og góð virkni í honum,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Hún segir að hraunáin renni enn til suðurs. Hraunið bunki sig reglulega upp og svo komi smá framhlaup. „En það er ekkert sem ógnar. Það er smá bunki núna að myndast við Hagafell og það gæti hlaupið fram úr því en það virðist ekki ná neinu eins og er,“ segir Salóme.
350 metrar í Grindavíkurveg
Hún segir næstu innviði varnargarðana fyrir sunnan og svo sé Melhólsnáma sem hraun hafi runnið ofan í síðustu daga. Um 350 metrar eru svo í Grindavíkurveg en færi hraunið þangað segir Salóme að það myndi líklega renna yfir þann hluta vegarins sem er í lítilli notkun.
„Það er búið að stýra mestri umferð um Norðurljósaveg núna.“

Hvarð varðar gasmengun segir hún ekki mikla gasmengun hafa mælst í nótt en að einhver mengun hafi mælst vegna gróðurelda sem hafi geisað á svæðinu. Í færslu á Facebook-síðu Veðurstofunnar í gær kom fram að á svæðinu sé viðvarandi norðaustanátt. Gasmengun berist því undan vindi til suðvestur. Brennisteinsdíoxíð gildi mældust há við Nesveg norðar við Grindavík og fóru upp í viðvörunargildi.
„Það má samt alltaf gera ráð fyrir að það sé mengun á svæðinu en hún mælist ekki endilega því það er hvasst á svæðinu og þegar það er norðaustanátt þá beinir það gasinu í suðvesturátt.“
Ekkert landris
Salóme segir að eins og stendur mælist ekki landris. Það sé líklega vegna þess að opið sé í gegn og hraunið enn að renna út.
„Það var bara fyrstu dagana, í byrjun síðustu viku, en svo hefur ekkert landris mælst. Það er ekki að safnast fyrir í Svartsengi því það er enginn söfnunarstaður á leiðinni “.